Guðbjartur Guðbjartsson á Láganúpi segir frá upphafi lóðanotkunar í Kollsvíkurveri.

gudbjartur guðbjartssonFrásögn Guðbjartar var skráð af Agli Ólafssyni safnamanni á Hnjóti.  Guðbjartur Guðbjartsson var lengst af bóndi á Láganúpi og formaður í Kollsvíkurveri.

Lóðir voru fyrst notaðar í Kollsvík vorið 1894.  Sá sem fyrstur notaði þær var Hákon Jónsson, bóndi á Hnjóti.  Einn af hásetum Hákonar þetta vor var Þórður Gunnlaugsson.  Hann var þá nýfluttur norðan frá Ísafjarðardjúpi að Bröttuhlíð á Rauðasandi, og mun hafa flutt þessa nýjung með sér.  Aðrir hásetar hjá Hákoni þetta vor voru þeir Halldór Benjamínsson bóndi í Keflavík; faðir Hafliða á Látrum o.fl., og Ólafur Jónsson bóndi á Hvalskeri; faðir Sigurjóns alþingismanns, Stefáns bónda á Skeri o.fl.

Til beitu á lóðirnar voru fyrst notuð hrognkelsi, ásamt ljósabeitu.  Fljótlega var þó farið að nota kúfisk, og var hann tekinn inni í Bug, hjá Hvalskeri.  Sá fyrsti sem notaði kúfisk til beitu mun hafa verið Þórarinn Thorlasíus, á Sveinseyri í Tálknafirði.  Og þar sem þessi beita var miklu betri.  Ekki er glöggt vitað hvenær byrjað var að nota kúfiskplóg, en pabbi (Ólafur Magnússon) minnist þess að Torfi Jónsson bóndi í Kollsvík hafi smíðað kúfiskplóg úr skeifnajárni.  Með honum var m.a. reynt að plægja undir Breiðavíkurrifi, en sú skel sem þar fékkst var mjög smá; aðallega rauðbarði. 

 

Ívar Ívarsson kemur að upphafi kúfisknotkunar til beitu í pistli sínum um Samvinnufélög í Rauðasandshreppi í Árbók Barðastrandasýslu 1949:  „Markús Snæbjörnsson .... var fyrstur manna hér að láta taka kúfisk og nota hann til beitu á lóðir með góðum árangri“  Útgerð Markúsar blómstraði á milli 1865 og 1898, en óvíst er hvenær hann tók kúfisk fyrst.