Össur Guðbjartsson á Láganúpi lýsir hér tvísýnum róðri Látramanna í byrjun 20. aldar.

ossurÖssur Guðbjartsson (19.02.1927 - 30.04.1999) ólst upp á Láganúpi.  Hann lauk búfræðinámi og framhaldsnámi á Hvanneyri og starfaði eftir það við barnakennslu í Rauðasandshreppi.  Hann tók við búi á Láganúpi af foreldrum sínum og bjó þar alla sína tíð.  Össur gegndi fjöldamörgum trúnaðarstöfum og félagsmálastörfum fyrir sína sveit; var m.a. hreppsnefndaoddviti í 16 ár.  Einnig var hann fulltrúi Vestfirskra bænda og stjórnarmaður í Orkubúi Vestfjarða.  Hann var giftur Sigríði Guðbjartsdóttur frá Lambavatni, sem einnig var ættuð úr Kollsvík, og eignuðust þau 5 syni.   Þátt þennan skráði Össur eftir frásögn Guðbjarts Þorgrímssonar, bónda á Hvallátrum, og birtist hann í jólablaði Víkings 1953.

Hvallátrar í Rauðasandshreppi heitir vestasta byggð á Íslandi.  Þaðan hefur frá ómunatíð verið sóttur sjór á smábátum, og síðar á tveggja til þriggja smálesta trillumbátum.

En þegar sá atburður gerðist, sem nú skal frá sagt, voru ekki komnir vélknúnir bátar, né áttavitinn kominn í hverja fleytu er á sjó var sett; enda hefði þá sennilega ekkert markvert skeð í þessari sjóferð.

Það var laugardaginn 25. september 1909, að fimm litlir árabátar lögðu af stað í fiskiróður frá Látrum, um klukkan níu að morgni.  Voru það m.a. Guðbjörg; norsk skekta, talin vera tveggja manna far.  Eigandi og formaður var Guðbjartur Þorgrímsson.  Með honum voru á bátnum Hálfdán Árnason mágur hans og mállaus maður, Kristján Jóhannesson, sem báðir áttu heima á Hvallátrum.

Annar báturinn var nefndur Rauðka; heldur stærri en bátur Guðbjarts.  Eigandi hennar og formaður var Erlendur Kristjánsson.  Með honum á bátnum Kristján Sigmundsson og Árni Jónsson, en báðir voru vinnumenn Erlendar.  Einnig Gestur Jósefsson frá Kollsvík; hann var gestkomandi að Hvallátrum og reri þennan eina róður með Erlendi.  Ekki hirði ég að geta annarra báta, með því að þeir koma hér lítið við sögu.  Ekki var venja að hafa mat með sér á sjóinn; aðeins venjulega sýrublöndu til drykkjar, því stutt var útivistin vanalega.

Veður var hið besta; sunnan gola, sem var þægilegur byr.  Var nú siglt fram á Látraröst; um tuttugu mínútna siglingu.  Til hafsins var svartur þokubakki sem virtist færast hægt nær.  Um slíkt var lítið skeytt, en tekið að renna er komið var til miða.

En þegar bátarnir höfðu skamma stund verið á fiski, gerði niðaþoku svo að hvergi sá til lands.  Einnig hafði sunnangoluna lægt og alveg var ládeyðu sjóleysa, svo að eftir engu var hægt að átta sig.  Fiskur var sæmilega ör, svo að ekki var hugsað til landferðar.  Nú vildi svo til að þokunni létti í bili, og sást þá til lands.  Fór þá Gestur Jónsson frá Látrum af stað í land, en hann réði fyrir einum þeirra fimm báta er róið höfðu.  Eftir skamma stund  var komin sama þokan aftur; svo svört að bátarnir hurfu nú hver af öðrum í þokuna.  Var nú klukkan orðin tólf á hádegi.

Vildin á fiskinum hélst og var því látið reka frá og suður, en suðurfall var á.  Ekki sáu menn á Guðbjörgu neinn af hinum bátunum vegna þokumyrkurs.  Þá var það, er menn voru undir færum, að þeir urðu varir við snöggan kipp á bátinn.  Varð formanni litið á bakborðssíðu bátsins, en þar flæddi sjór inn því komið höfðu tvær samhliða sprungur á annað umfar að neðan, og borðið gengið inn á milli þeirra.  Varð honum það þá fyrir, að hann þreif gogg er þar lá; sló borði út, og minnkaði lekinn nokkuð við það.  Hásetarnir tveir sem með voru tóku nú að ausa, og kom þá í ljós að lekinn var svo mikill að ekki mátti sleppa austurtrogi.

Lét þá formaður rétta sér bræðingskrús er með var, og makaði bræðingi á sprungurnar.  Minnkaði lekinn svo við það að þeir gátu farið að renna.  Ekkert vissu þeir félagar af hverju högg þetta mundi hafa stafað, og reyndu engum getum að því að leiða.  Veður var gott, nema hvað þokubikið var slíkt að ekki sást nema fáar bátslengdir frá bátnum.

Eftir tímanum átti að vera farið að reka norður, og því var farið að hugsa til landferðar.  Þeir félagar á Guðbjörgu vissu það eitt að þeir voru einhversstaðar norðvestur af Bjargtöngum.  Var nú aftur kominn svolítill vindkaldi, og reiknuðu þeir með sömu vindstöðu og verið hafði í byrjun; sem síðar reyndist ekki rétt.  Voru nú undin upp segl á Guðbjörgu, og var það ætlunin að sigla undir Bjargtanga og hafa þar landkenningu.

Ekkert bar nú til tíðinda fyrr en þeir félagar sjá bát er sigldi á eftir þeim, og nálgaðist óðum.  Reyndist það vera bátur Erlendar frá Látrum.  Náði hann þeim von bráðar, því hans bátur var miklu hraðsigldari en Guðbörg.  Er hann nær þeim segir hann við þá, að þeir skuli ekki missa sjónar hvor af öðrum fyrr en landkenning sé fengin, og var það fastmælum bundið.  Beið hann nú eftir Guðbjörgu í hvert sinn sem hann var kominn svo langt að hann var að því kominn að hverfa í þokuna.  Var nú siglt þannig nokkurn tíma; þar til þeir voru búnir að sigla ca. fimm tíma.  Kallar þá Guðbjartur til Erlendar að ekki þýði að sigla lengur, því að þeir hljóti að vera á rangri leið þar sem þeir séu ekki komnir að landi; best sé að leggjast.  Féllst hann á það en spyr um leið við hvað eigi að leggjast, þar sem engin legufæri séu meðferðis.  En í Guðbjörgu voru tveir sandpokar sem kjölfesta.  Var nú Guðbjörgu lagt við sandpokana, og handfærin notuð sem legufæri.  Bátur Erlendar var bundinn aftan í Guðbjörgu, þar sem enn hélst sæmilegt veður.  Er þessu var lokið mun klukkan hafa verið um tíu síðdegis.  Reyndist dýpið þarna vera um 40 faðmar, og var því auðséð að þeir höfðu harla lítið nálgast land frá því að siglingin hófst.  Var síðan andæft framá vegna straums, svo ekki drifi.  Leið svo fram til kl 4 um nóttina.

Heyrðu þeir þá eins og vindsuðu, og um leið fór að bera á smábáru sem var mjög óð; eins og undan vindi.  Ekkert þýddi samt að hreyfa sig vegna náttmyrkurs.  Leið svo fram til klukkan sex um morguninn, að birta tók, en stöðugt óx báran.  Sáu þeir félagar þá land, sem reyndist vera Skorin.  Vindurinn reyndist vera af suðvestri.  Var nú ekki til setu boðið og tekið að seglbúa; sem óðar var búið, og sigling hafin.  Var nú stefnt út í Bugtina; á Bjargtanga.

Er þeir félagar lögðu af stað, segir Erlendur að hvassar muni er utar dragi í Bugtina.  Reyndist það og svo, því að þeim mun lengra sem úteftir kom jókst vindur, og var nú kominn talsverður undirsjór.  Var Erlendur nokkuð á undan þeim á Guðbjörgu, þar sem bátur hans var mun hraðskreiðari, sem áður er sagt.  En þegar um það bil var hálfnuð leið frá því sem þeir lágu um nóttina að Bjargtöngum, beið hann eftir þeim á Guðbjörgu.  Lagði þá Guðbjartur til að þeir færu í Keflavík og lentu þar; með því að ófært mundi fyrir Bjargtanga, yfir Látraröst.  Kom þá til umræðu hvort lendandi mundi í Keflavík, sem var eini lendingarstaðurinn sunnan Tanga; og sýndist sitt hvorum.  Að lokum var það borið undir Hálfdán, sem var háseti á Guðbjörgu, en hann var kunnugur í Keflavík.  Taldi hann að það mundi fært.  Var nú lensað áleiðis til Keflavíkur.  En er þeir komu inn undir Látrabjargið var svo hvasst að sjór rauk.  Ferðin gekk samt vel, og var siglt hiklaust gegnum brimgarðinn og í lendingu í Keflavík.  Var þá liðinn sólarhringur frá því þeir fóru í róðurinn.

Sögðu kunnugir menn, að klukkutíma seinna myndi enginn bátur hafa getað lent í Keflavík.  Hinum sjóhröktu mönnum var tekið tveimur höndum af heimamönnum; þeim Sumarliða Bjarnasyni og konu hans, Guðrúnu Ingimundardóttur; bróður Sumarliða, Bæring Bjarnasyni og konu hans, Jóhönnu Árnadóttur, sem þá bjuggu í Keflavík.  Fengu þeir hina bestu aðhlynningu.  Eftir tiltölulega skamma viðdvöl héldu þeir heimleiðis að Látrum; yfir Látraheiði.  Er þeir höfðu farið um það bil hálfa leiðina mættu þeir manni.  Var þar kominn Jón Guðjónsson frá Breiðuvík, en hann hafði verið fenginn til þess að fara út á Látrabjarg og skyggnast eftir því hvort hann yrði nokkurs vísari um afdrif þeirra félaga, sem heima á Látrum voru nú taldir af.  Nærri má geta að hann hafi þóst þá úr helju heimt hafa er hann mætti þeim öllum þarna á fjallinu; heilum á húfi, sem hann bjóst ekki við að sjá framar í þessu lífi. Ekki urðu minni fagnaðarfundir er þeir félagar komu heim.  Vissan um að þessir menn væru farnir fyrir fullt og allt, hafði þegar sett svip sinn á fólkið á Látrum.  Það var að fjara út síðasta vonin um að þeir kæmu nokkurntíma heim aftur þegar þeir komu; en þeim mun innilegri varð gleðin yfir að heimta þá aftur heila á húfi.