Guðbjartur Guðbjartsson lýsir hér Kollsvíkurveri í stuttu máli.  Guðbjartur var lengst af bóndi á Láganúpi og formaður í Kollsvíkurveri. 

gudbjartur guðbjartssonGuðbjartur Guðbjartsson (15.07.1879 – 01.10.1970) fæddist i Kollsvík; yngstur 19 alsystkina.  Þar ólst hann upp, en föður sinn missti hann ungur.  Guðbjörg systir hans og Torfi Jónsson maður hennar sáu um heimilið, en þau áttu 13 börn.  Barnmargt var því á heimilinu.  Í fyrstu var Guðbjartur vinnumaður í Kollsvík.  En 1904 fórst Torfi af slysförum í Snorralendingu, og tók Guðbjartur þá við ráðsmennsku.  1909 giftist Guðbjartur konu sinni, Hildi Magnúsdóttur sem ólst að mestu upp á Kollsvíkurheimilinu.  Þau hófu búskap í Tröð, en fluttu þaðan að Hnjóti 1920, þar sem Málfríður systir Guðbjartar var nýorðin ekkja eftir móðurbróður Hildar.  Þaðan fluttu þau árið eftir á hjáleiguna Grund í Kollsvík, en 1927 fengu þau jörðina Láganúp til ábúðar,og bjuggu þar síðan.  Guðbjartur var fyrst og fremst bóndi; annálaður fyrir natni sína við skepnur; fjárglöggur með afbrigðum og atorkumaður í hvívetna.  Hann var afkastamesti grjóthleðslumaður sem um getur á svæðinu; eftirsóttur til þeirra verka víða um sveitir, og standa enn stæðilegar hleðslur víða, sem minnisvarði um þá list. 

Ungur að aldri byrjaði Guðbjartur að sækja sjó, og lengi hafði hann félagsútgerð með frænda sínum Ólafi Halldórssyni frá Grundum.  Saman gerðu þeir út bátinn Rut til 1925 að Guðbjartur hóf að gera Rutina út með sonum sínum; framundir 1940.  Sjósóknin vóg oft þyngra en búskapurinn í öflun lífsbjargar.

Guðbjartur var hafsjór af fróðleik sem varðaði fyrri tíma atvinnuhætti og margt fleira.  Hann flíkaði ekki sinni þekkingu, en var þó jafnan tilbúinn að svara þeim sem spurðu.  Egill Ólafsson bóndi og safnari á Hnjóti skrásetti þessar upplýsingar eftir honum árið 1962, og Jóhann Ásmundsson safnvörður á Hnjóti kom þeim síðar á heimasíðu Minjasafns Egils.  Önnur fróðleg frásögn Guðbjartar birtist í sunnudagsblaði Þjóðviljans árið 1963, rituð af Þórleifi Bjarnasyni, ásamt viðtali við Hildi.  Frásagnir Guðbjartar af Kollsvíkurveri, ásamt frásögnum Kristjáns Júlíusar Kristjánssonar; Ingvars Guðbjartssonar og fleiri, gefa góða mynd af þessum horfnu atvinnuháttum í mestu verstöð sunnanverðra Vestfjarða á tímum árabátanna.

Í þeirri vík í Rauðasandshreppi er Kollsvík heitir, hafa um aldir verið tvö aðalbýli; Kollsvík og Láganúpur.

Útræði var stundað um aldir frá Útvíkum í Rauðasandshreppi.  En verstöðvar aðkomumanna voru fyrst og fremst í Látravík og Kollsvík; á hverjum tíma á einum stað í hvorri vík.  Framundir 1870 var verstöð fyrir Láganúpsland í (vestanverðri) Kollsvík, og kallaðist Láganúpsver. 

Á áratugnum 1870-1880 færist verstöðin frá Láganúpi og að Kollsvíkurlendingu, og er svo komið 1880 að enginn bátur er gerður út frá Láganúpi, en allmargir bátar róa úr Kollsvíkurveri.  Var Kollsvíkurver síðan aðalverstöð Rauðasandshrepps um hálfa öld, eða fram um 1930.  En síðan fer mjög að draga úr útgerð þar, svo sem á öðrum slíkum stöðum víða um land, og leggst niður að mestu um 1940.

Meðan Kollsvíkurver var í blóma voru þar að jafnaði nokkrir aðkomubátar á vorvertíð.  Árið 1890 eru gerðir út frá Kollsvíkurveri þessir bátar:

Sultur, eigandi Torfi Jónsson bóndi í Kollsvík, og var hann formaður.  Sultur mun fyrst hafa verið í eigu föður Torfa; Jóns Torfasonar bónda á Hnjóti.

Reitingur, eigendur Magðalena Halldórsdóttir, ekkja Guðbjartar Ólafssonar bónda í Kollsvík, og sonur hennar Ólafur Guðbjartsson er þá var vinnumaður í Keflavík hjá Jóni Gíslasyni.  Formaður á Reitingi var Ólafur Guðbjartsson.

Heppinn, eigandi og formaður Halldór Ólafsson bóndi á Grundum.

Bóndi á Láganúpi var Ásbjörn Ólafsson; átti hann engan bát.

Með fyrstu aðkomubátum í Kollsvíkurver var vöðubátur, en svo voru þeir bátar kallaðir sem notaðir voru til vöðuselsveiða.  Selurinn gekk oft í stórum torfum inn á firðina.  Var hann mikið veiddur, og veiðarfærið var skutull.  Vöðubátar voru frekar litlir; minni en fjögramannaför, en það var hin venjulega stærð róðrarbáta.  Þessir bátar voru öðruvísi lagaðir en róðrarbátar; byggðir með það fyrir augum að vera sem hraðskreiðastir.

Eigendur að fyrsta vöðubátnum í Kollsvíkurveri voru Magnús Árnason bóndi á Hnjóti og Gísli Ólafsson bóndi á Sellátranesi.  Mun báturinn hafa verið aðkeyptur.  Formaður á bátnum var Magnús Árnason.  Hásetar voru Gísli Ólafsson meðeigandi, og Magnús Pétursson vinnumaður í Breiðavík.

Árið 1894 er byrjað að róa með lóðir úr Kollsvíkurveri.  Áður hafði eingöngu verið stunduð handfæraveiði.  Færi voru úr fimmpundalínum, frönskum; sökkur úr frönskum lóðum (sökkum) er skipt var í tvennt.  Hæfileg þyngd á sökku var talin fjögur og hálft pund.  Það var enginn ás hafður í sökkum.  Taumur var venjulega tveir þættir úr færinu; lengd tveir þriðju úr faðmi.  Taumnum var fest við sökkuna á sama stað og færinu.  Lengd á færi var 30 faðmar, eða hálf frönsk lína.  Ás í sökkur er ekki farið að nota fyrr en upp úr aldamótum, eða sigurnagla.  Þetta sama mun hafa tíðkast í öðrum verstöðvum í Rauðasandshreppi. 

Upphafsmaður lóðafiskirís í Kollsvíkurveri var Þórður Gunnaugsson, þá nýfluttur frá Ísafjarðardjúpi og sestur að í Vatnsdal með fjölskyldu sína; 1887.  Hann var fyrst háseti Hákonar Jónssonar, síðar bónda á Hnjóti.  Hákon var þá vinnumaður hjá Torfa bróður sínum í Kollsvík.  Bátur Hákonar var frá Færeyjum; keyptur af Færeyingum er reru frá Láturdal sumarið 1893.  Bátur þessi var kallaður Færeyingur.  Formaður á Færeying var Hákon Jónsson, síðar oddviti í Rauðasandshreppi, og Halldór Benjamínsson, síðar bóndi í Keflavík.

Lóðastrengur var gerður úr tveimur þáttum franskrar línu, en franskar línur voru af þremur aðalþáttum.  Þriðji þátturinn úr fransklínunni var rakinn niður í grennri þætti, og voru tveir slíkir snúnir saman í öngultauma.  Önglar voru lóðajárn nr 7; 200 önglar á lóð.  Taumar voru 17 tommur á lengd, og bil milli taum á streng var tvær og hálf alin.  Steinar voru notaðir í stað dreka við enda lóðanna.

Beita á lóðirnar þetta fyrsta vor var svokölluð hrognkelsabeita; þ.e. innyfli og hýði utanaf hrognum, ásamt því sem í því loddi af hrognunum.  Þegar líða tók á vorið og steinbítur tók að veiðast, var notaður steinbítsgormur til beitu, en það er görnin úr steinbít.

Fyrsti róðurinn sem Hákon fór með lóðir var vorið 1894, eins og áður er getið.  Þeir bátar er voru á sjó þennan dag á handfærum reru norður á Blakknesröst.  Þeir voru Sultur, Heppinn og Reitingur.  Fjórir menn voru á bát, og var ég háseti á Reiting.  Veður var suðaustan kaldi, en hvessti er leið á daginn svo að við urðum að fara í land fyrr en ætlað var.  Gátum við notað segl suður að Boða (líkl. Blakknesboða), en þaðan var barningur í land og miklar ágjafir.  Ein árin hafði brotnað í Sult í þessum róðri, og varð Torfi að lenda undir svokölluðum Völlum í Blakknesi.  Hákon bróðir Torfa var þá nýkominn í land úr sínum fyrsta róðri með lóðir.  hann grunaði hvað komið hefði fyrir bróður sinn og bað Halldór Benjamínsson háseta sinn að fara með árar til Torfa.

Það er af Hákoni að segja að hann lagði lóðirnar suður af Yngrajónsmiði, en það er út og suður af Djúpboða í Kollsvík.  Afli var lítill þennan dag, en Hákon aflaði ekki minna en hinir.  Þótti það spá góðu um framhaldið á þessari nýju veiðiaðferð í Kollsvíkurveri.  Hákon stundaði línuveiði út vertíðina.  Vertíðin byrjaði sumardaginn fyrsta og var til messudaga.  Við vertíðarlok reyndist aflinn hjá Hákoni bæði meiri og betri en hjá hinum bátunum úr Kollsvíkurveri.  Þetta varð til þess að lóðir voru almennt teknar upp árið eftir, og lóðafiskirí stundað einvörðungu í Kollsvíkurveri eftir þetta, meðan þaðan var gert út.  Árið 1895 var farið að nota kúfisk í beitu, og var hann eingöngu notaður uppfrá því.  Hákon var með 7 lóðir fyrstu vertíðina, en síðar varð almennt að vera með 10 lóðir á bát, eða þúsund öngla.

Árið 1900 eru þessir bátar gerðir út frá Kollsvíkurveri, auk þeirra sem áður er getið:

Borga, eigandi og formaður Torfi Jónsson Kollsvík.

Gráni, eigendur Bjarni Gunnlaugsson í Tröð í Kollsvík og Ólafur Ásbjörnsson bóndi á Láganúpi.  Ólafur var formaður.

Þessir bátar er nú voru nefndir voru á leið yfir Patreksfjörð 1. maí 1897, er bátur fórst í Örlygshöfn með sex mönnum, en sjöundi maðurinn bjargaðist; Þorgrímur Ólafsson í Miðhlíð á Barðaströnd.  Var hann farþegi og var á leið til sjóróðra í fyrsta sinn; ráðinn hjá Hákoni Jónssyni er þá var húsmaður á Stekkjarmel í Kollsvík.  Á þessum bát fórst Þórður Gunnlaugsson, sem upphafsmaður var að því að nota lóðir í Kollsvíkurveri.

Nú verða nefndir nokkrir bátar til viðbótar, sem gerðir voru út frá Kollsvíkurveri:

Snarfari, eigendur Össur og Gísli Guðbjartssynir í Kollsvík; formaður Gísli Guðbjartsson.

Rut, eigendur Ólafur Halldórsson og Guðbjartur Guðbjartsson Kollsvík; formaður Ólafur Halldórsson.

Lára, eigandi og formaður Þórður Marteinsson bóndi í Fit á Barðaströnd.

Guðrún, eigandi og formaður Össur Guðbjartsson bóndi á Láganúpi.

Jóhanna, eigandi og formaður Þórarinn Bjarnason á Bökkum í Kollsvík.

Rauðka, eigendur Steinn Bjarnason og Karl Kristjánsson í Kollsvík.  Karl var formaður.